Ávarp

Fylgt úr hlaði

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir

Árið 2017 er gengið í garð. Þess verður minnst að hinn 31. október eru 500 ár liðin frá því að Marteinn Lúther hengdi greinarnar 95 upp á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi. Þar mótmælti hann aflátssölu kirkju sinnar, hinnar rómversk-kaþólsku, en hún seldi bréf eða skjöl sem tryggja áttu fólki styttri tíma í hreinsunareldinum en það átti skilið samkvæmt þeirri kenningu er kirkjan hélt fram. Með þessari gjörð sinni var hann ekki að hvetja til klofnings í kirkjunni, heldur benda á að kirkjan væri ekki á réttri leið. Kirkjan gæti ekki safnað fé til viðhalds og bygginga með þessum hætti. Hún ætti að hvetja fólk til fyrirbæna og biðja
sjálf fyrir fólki.

Lúther sá ekki fyrir að 500 árum síðar myndu kirkjur, sem kenndar eru við hann, minnast þess sem hann hafði lagt áherslu á og kennt. Kirkjur sem hafa mótast af hugmyndum hans, m.a. um ríkin tvö, hinn almenna prestsdóm og köllunarhlutverk kristins manns.

Undanfarin ár hefur Nefnd um fimm alda minningu siðbótar undirbúið tímamótin og afmælisárið með því að standa fyrir viðburðum, útgáfu og málþingum af ýmsu tagi. Ég þakka nefndinni störfin og bið þess að hátíðarárið færi fólkinu í kirkjunni blessun.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

Ávarp formanns

Gunnar J. Gunnarsson

Á árinu 2017 minnumst við þess að 500 ár eru liðin frá því Marteinn Lúther hengdi skjal með 95 greinum á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg. Sá viðburður markaði upphaf siðbótarinnar. Þessara tímamóta minnast lútherskar kirkjur víða um lönd með margvíslegum hætti. Þjóðkirkjan á Íslandi er í þeim hópi og vill minnast fimm alda afmælis siðbótarinnar á fjölbreyttan hátt hér á landi. Áherslan er á siðbótina sem hreyfingu og þau margþættu áhrif sem hún hafði. Jafnframt beinist athyglin að Lúther, áherslum hans og sjónarmiðum. Þessi tímamót gefa tækifæri til að líta um öxl, horfa fram á veginn og vega og meta áhrif Lúthers og siðbótarinnar. Hvaða merkingu hefur siðbótin og áherslur Lúthers nú á tímum? Hvernig birtist siðbótararfurinn í nútímasamfélagi á Íslandi og hvaða gildi hefur hann?

Nefnd um fimm alda minningu siðbótarinnar var skipuð af kirkjuráði árið 2012. Undanfarin ár hefur hún unnið að undirbúningi ýmissa viðburða á árinu, eins og sjá má í þessari dagskrá. Afmælisnefndin mótaði sér þá stefnu þegar í upphafi að minnast tímamótanna með margvíslegum hætti og hefur haft það að markmiði að vera í samstarfi við einstaklinga og hópa sem spegla fjölbreytni í starfi kirkjunnar á 21. öld. Meðal annars hefur verið lögð áhersla á verkefni og viðburði sem ná til safnaða um land allt.

Ég þakka nefndarfólki gott samstarf og bind vonir við að viðburðir ársins veki umhugsun og umræðu um gildi siðbótarinnar og þau margvíslegu áhrif sem hún hafði.

Gunnar J. Gunnarsson
Formaður nefndar um fimm alda minningu siðbótar