Tesur í Hallgrímskirku

Dagana 28. – 31. október fer fram myndlistargjörningurinn Tesur í Hallgrímskirkju. Opnun gjörningsins verður laugardaginn 28. október kl.14.

Gestum er boðið að semja og teikna sínar eigin „tesur“ sem prentaðar verða með háprenti á pappír og síðan negldar á trévegg í kirkjunni.

Myndlistargjörningurinn Tesur er hugverk listakvennanna Guðrúnar Kristjánsdóttir og Ólafar Nordal. Verkið á að minna á gjörninginn þegar Lúther negldi „tesurnar“ 95 á kirkjudyrnar í Wittenberg og markaði þannig upphaf siðbótar í Evrópu.

Upphaf siðbótar og þróun vestræns prentverks liggur samsíða í tíma. Mótmælendur í Norður-Evrópu nýttu sér þessa nýju tækni til að breiða út hinn nýja sið hvort sem var til prentunar á Guðs orði eða áróðusritum.

Gjörningurinn var settur upp á Hólum í Hjaltadal á Hólahátíð en þar er vagga prentlistar á Íslandi og er talið að fyrsta prentsmiðjan hafi verið sett þar upp um 1530 af Jóni Arasyni Hólabiskup. Seinna notaði Guðbrandur Þorláksson biskup sömu prentsmiðju til útbreiðslu siðbótar hérlendis með stórfelldri bókaútgáfu sinni á íslenskri tungu. Á Hólum er stærsta biblíusafn landsins.

Listakonurnar hvetja gesti til að styðja við flótta- og hælisleitendastarf Hjálparstarfs kirkjunnar um kr. 2500 omeð því að hringja í söfnunarsíma: 907 2002