Hátíðarmessa og Tónleikhús

Hátíðarmessa verður í Hallgrímskirkju 29. janúar kl. 11. Messunni verður útvarpað á Rás 1. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónar fyrir altari. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar. Björn Steinar Sólbergsson er organisti. Mótettukór Hallgrímskirkju syngur ásamt barnakór kirkjunnar. Vígslubiskupar og Nefnd um fimm alda minningu siðbótar tekur þátt í helgihaldinu. Tónleikhús um tvær siðbótarkonur verður svo flutt strax að lokinni messu eða kl. 12.15.

Tónleikhús um tvær siðbótarkonur

BarokkReykjavík-hópurinn

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir flutningi á tónleikhúsinu Elísabet og Halldóra, Bach og Grallarinn 29. janúar 2017 í Hallgrímskirkju kl. 12.15 í kjölfar hátíðarmessu sem haldin verður sama dag kl. 11.

Hópurinn samanstendur af 12 hljóðfæra­leikurum en auk þeirra koma fram á sýningunni fjórir söngvarar og ­leikkona. Aðalhlutverkin í sýningunni verða í höndum Maríu Ellingsen leikkonu og söngvaranna Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur og ­Jóhönnu Halldórsdóttur. Konsertmeistari ­ReykjavíkBarokk á sýningunni verður ­Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari og ­listrænir stjórnendur verkefnisins eru Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari og Guðný ­Einarsdóttir organisti.

Tónleikhúsið varpar ljósi á sögu tveggja kvenna frá siðbótartímanum og byggist á heimildum um líf þeirra og störf. Konurnar tvær eru þær Halldóra Guðbrandsdóttir (1574–1658) sem m.a. var fóstra Hallgríms Péturssonar og bústýra á Hólum með leyfi konungs í forföllum föður síns, ­Guðbrands Þorlákssonar, og hin þýska Elísabet ­Cruciger (1500–1535) sem gerðist nunna en snerist seinna til hins nýja siðar. Elísabet var eitt af fyrstu sálmaskáldum siðbótarinnar og samstarfs­kona Marteins Lúthers. Sálmur hennar var með í allra fyrstu útgáfu ­sálma­bókar Lúthers og barst til Íslands og var ­prentaður í fyrstu útgáfu Grallarans, ­messubókar ­Guðbrands Þorlákssonar.

Tónefniviður tónleikhússins verður kantatan „Herr Christ, der einge Gottes Sohn“ BWV 96 sem Johann Sebastian Bach (1685–1750) samdi yfir sálm Elísabetar Cruciger og messa ­samkvæmt messubók Guðbrands ­(Grallaranum) þar sem stuðst er við 1. sunnudag í aðventu, en þar er sálmur Elísabetar upphafssálmur messunnar. Tónlistin verður leikin á uppruna­hljóðfæri og fléttuð saman við söng og textabrot sem listakonur úr hópnum spinna og móta í samvinnu við leikstjórann og leikkonuna Maríu Ellingsen. Verkefnið varpar ljósi á marga áhrifaþætti siðbótarinnar, t.d. trúar-, menningar- og ­tónlistarsögu.

Tónleikhúsið verður flutt aftur að kvöldi 29. janúar í Hjallakirkju kl. 21 og stefnt er að endurflutningi síðar á árinu.

Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir